Dags: 10. maí 2010, kl. 20:00
Staður: Grand Hótel, Svítan 13. hæð
Fundarstjóri: Jónína Stefánsdóttir
Mættir: 16 félagsmenn
Ritari: Margrét Bragadóttir
Fundurinn hófst á því skipaðir voru fundarstjóri og fundarritari. Síðan var gengið til dagskrár.
Dagskrá fundarins var eftirfarandi:
1. Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2009-2010
Formaður kynnti skýrslu stjórnar. Sjá í fylgiskjali.
2. Reikningar félagsins
Sigríður Ásta Guðjónsdóttir, gjaldkeri kynnti reikninga félagsins. Á síðasta ári voru afskrifaðar útistandandi skuldir vegna vangoldinna félagsgjalda. Reikningar voru samþykktir samhljóða.
3. Starfsáætlun, fjárhagsáætlun næsta starfsárs og ákvörðun félagsgjalda.
Formaður kynnti tillögur stjórnar að starfsáætlun. Sjá í fylgiskjali.
Stjórnin lagði til að óbreytt félagsgjöld; 4000 kr. Helstu útgjöld eru vegna Matvæladagsins og gera má ráð fyrir að samdráttur verði í styrkveitingum. Tillaga stjórnar er að formanni og umsjónarmanni heimasíðu verði áfram greiddar 30.000 krónur á mánuði, í 9 mánuði á ári sem verktakagreiðslur. Félagið styrkir námskeið í samvinnu við Endurmenntun HÍ að hámarki 10 þ. Kr. á ári.
5. Skýrslur nefnda.
Eftirfarandi nefndir gáfu skýrslu:
Matvælahópur sem í sitja: Baldvin Valgarðsson, Ólöf Hafsteinsdóttir og Ragnheiður Héðinsdóttir. Helstu mál hópsins voru námskeið í samstarfi við Endurmenntun og fyrirtækjaheimsóknir, sem hvortveggja hafa verið vel sótt.
Næringarhópur sem í sitja: Óla Kallý Magnúsdóttir og Ragnheiður Guðjónsdóttir. Fulltrúum í forsvari í hópnum var fjölgað um tvo. Um 30-40 eru á póstlista hópsins. Helstu mál voru niðurgreiðslur á þjónustu næringarráðgjafa. Tryggingarstofnun hafnaði þátttöku vegna kostnaðar við næringarráðgjöf, en hinsvegar samþykkti Bandalag háskólamanna (BHM) slíka þátttöku. Það hefur verið kynnt öðrum stéttarfélögum og regnhlífasamtökum þeirra.
Næringarrekstrarhópur sem í sitja: Elín Einarsdóttir, Guðný Jónsdóttir og Olga Gunnarsdóttir. Einn fundur var haldinn á árinu. Einnig var hérlendis haldinn lokafundur í Norrænni stjórn næringarrekstarfræðinga, en sá félagsskapur verður lagður niður.
6. Kjör til stjórnar.
Í stjórn sitja áfram til eins árs:
a) Herdís Guðjónsdóttir, formaður.
b) Ragnheiður Guðjónsdóttir.
c) Helen Williamsdóttir Gray.
Eftirfarandi stjórnarmenn gáfu kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu í tvö ár:
a) Guðný Jónsdóttir.
b) Sigríður Ásta Guðjónsdóttir
Varamenn voru kosnir til eins árs:
a) Rósa Jónsdóttir (endurkosin).
b) Borghildur Sigurbergsdóttir.
7. Kjör tveggja endurskoðenda og eins til vara..
Skoðunarmenn reikninga voru kosnir:
Svava Líf Edgardsdóttir
Pétur Helgason var endurkosinn.
Edda Magnúsdóttir, varamaður.
8. Önnur mál
a) Menntamál
Margir tóku til máls vegna ástandsins í menntamálum í okkar fagi. Næringarrekstrarfræði er ekki kennd hérlendis. Enginn er skráður í grunnnámi í matvælafræði, þó svo nokkur hópur sé í framhaldsnámi við matvælafræði. Annað nám í matvælageiranum á líka undir högg að sækja, þar sem Fiskvinnsluskólinn var lagður niður fyrir nokkrum árum og afar fáir stunda iðnnám í matvælagreinum.
Matvælatæknifræði sem Matís ætlaði að koma á fót hefur ekki gengið eftir.
Það jákvæða er að næringarfræðin við HÍ mjög vinsæl og þar þarf að beita fjöldatakmörkunum. Enn fremur hefur næringarfræði verið tekin inn í aðalnámsskrá grunnskóla, sem hluti af líffræðinámi. Jafnframt er mikilvægt að styðja við heimilisfræðikennslu í grunnskólum.
Rætt var um áhrif þess að matvælafræði ásamt næringarfæði var sett undir Heilbrigðisvísindasvið HÍ og töldu fundarmenn það hafa slæm áhrif á matvælafræði sem væri í eðli sínu raungreinafag. Lagt var til að stjórn MNÍ sæi um næstu skref sem stefndu að því að gera okkur sýnileg sem fagfélag og styðja við menntun á okkar sviði.
b) Heimasíða MNÍ
Tillaga kom um að gerð væri starfslýsing fyrir umsjónaraðila heimasíðu MNÍ.
c) Óskað var eftir að faghópar væru í meiri tengslum við stjórn MNÍ.
Engin önnur mál voru tekin fyrir.
Fundi slitið.