MatvŠla- og nŠringarfrŠ­afÚlag ═slands
FrÚttir Greinar & pistlar Fundarger­ir Myndaalb˙m Tenglar A­ildarumsˇkn Rß­gj÷f & ■jˇnusta
MatvŠla- og nŠringarfrŠ­ideild


Matvæla- og næringarfræðideild
Haustið 2008 hófst ný deild innan Heilbrigðisvísindasviðs, matvæla- og næringarfræðideild, en áður voru þessar fræðigreinar kenndar innan raunvísindadeildar. Boðið er upp á nám til B.S. gráðu í matvælafræði og í fyrsta sinn einnig nám til B.S. gráðu í næringarfræði. Báðar þessar greinar mæta þörf fyrir sérhæfða menntun til að sinna mikilvægum verkefnum í samfélaginu. Þar má nefna nýtt og hefðbundið atvinnulíf, rannsóknastofnanir, háskóla og  heilbrigðiskerfið.
Námið er fjölbreytt, þverfaglegt, krefjandi og byggir bæði á bóklegu og verklegu námi ásamt raunhæfum verkefnum.  Lögð er áhersla á sjálfstæði, vísindaleg vinnubrögð og hæfni nemenda í lausnamiðuðu námi. Hvatt er til skapandi umræðna milli nemenda og kennara þar sem skoðanir og hugmyndir nemenda fá að njóta sín. Fjölbreytni námsins og hæfni til að sinna margs konar störfum gerir matvælafræðinga og næringarfræðinga eftirsótta í atvinnulífinu bæði hérlendis og á alþjóðavettvangi. 
Markmið matvæla- og næringarfræðideildar er að veita fyrsta flokks kennslu í matvælafræði og næringarfræði auk þess að stunda framúrskarandi rannsóknir á fræðasviðunum. Markmið er einnig að auka þekkingu samfélagsins á matvælafræði og næringarfræði og að veita þjónustu sem nýtist opinberum aðilum, fyrirtækjum, stofnunum og neytendum til lífsgæða og góðrar heilsu.


MATVÆLAFRÆÐI

Heilbrigðisvísindasvið 


Matvælafræði – aukinn sveigjanleiki og nýjungar í námi við Háskóla Íslands

Matvælafræði byggir á sterkum grunni raunvísinda, verk- og tæknifræði og veitir innsýn í heilbrigðisvísindagreinar. Verkefni eru m.a. um lausnir fyrir líftækni, framleiðslu, vinnslu, öryggi, nýtingu, umbúðir og þróun matvæla með hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Verkefnin eru oft unnin í miklum tengslum við iðnaðinn, stofnanir og tæknifyrirtæki. Hægt er að sækja um löggilt starfsheiti matvælafræðings eftir BS-gráðu í matvælafræði en stefnt er að því að allir matvælafræðingar útskrifist með MS-gráðu. Í framhaldsnáminu er boðið upp á sérhæfingu á ýmsum sviðum matvælafræðinnar eins og matvælavinnslu, matvælaverkfræði, matvælaefnafræði, matvælaörverufræði, öryggi matvæla og líftækni.

Grunnnám til B.S. gráðu í matvælafræði er 180 eininga, þriggja ára, nám. MS-námið er 120 einingar með rannsóknarverkefni unnið undir handleiðslu og í samstarfi við kennara og samstarfsfólk innanlands og utan. Doktorsnám í matvælafræði felur í sér 180 eininga vísindaleg og tæknileg rannsóknarverkefni sem leiða til nýrrar þekkingar og nýsköpunar. Öllum nemendum í framhaldsnámi stendur til boða að taka hluta af námi sínu erlendis í samvinnu við leiðbeinendur.

Námið til B.S. prófs í matvælafræði var nýlega endurskipulagt með það að markmiði að auka sveigjanleika og val í náminu (um 20% eininga í vali).  Um helmingur grunnnámsins er sameiginlegur fyrir nemendur í matvælafræði og næingarfræði. Stór hluti þess er einnig sameiginlegur með lífefnafræði og lyfjafræði en allt þetta eykur sveigjanleika nemenda í náminu.


Innlent og alþjóðlegt tengslanet

Öflugt samstarf er á milli kennara deildarinnar og stofnana og fyrirtækja innanlands.

Sérstakur samningur er við Matís ohf, sem er opinbert hlutafélag í rannsóknum og nýsköpun á matvælum.  Á Matís vinnur fjöldi nemenda að verkefnum í framhaldsnámi með það að markmiði að efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu, stuðla að hollustu og öryggi matvæla. 

Kennarar deildarinnar eru einnig í mjög virku samstarfi við virta háskóla í Evrópu og Bandaríkjunum. Nemendur fá tækifæri til að tengjast atvinnulífi og öðlast reynslu í samskiptum við innlenda sem og erlenda aðila í námi sínu, sem er ómetanleg reynsla og nemendur búa að eftir að námi lýkur.  Nemendur bæði í grunn- og framhaldsnámi eiga því kost á mikilli reynslu gegnum alþjóðleg tengsl.


Framúrskarandi rannsóknir

Tækifæri í rannsóknum á sviði matvælafræði og næringarfræði hérlendis eru gríðarlega mikil. Áhugi almennings eða neytandans á góðri matvælaframleiðslu og næringu er einnig alþjóðlegur og kallar á matvælafræðinga og næringarfræðinga til margra starfa. Í rannsóknum á sviði matvælafræði er sérstaða Íslands í fyrirrúmi. Öflugar rannsóknir eru t.d. stundaðar á sviði líftækni þar sem m.a. er unnið að framleiðslu lífefna fyrir heilsuiðnað með aukið verðmæti sjávarfangs að markmiði. Eðli málsins samkvæmt er mikil áhersla á sjávarfang í rannsóknum við deildina og er þar komið inn á flest svið matvælafræðinnar eins og vinnslu, vinnslunýtingu og stýringu, þróun nýrra vinnsluaðferða og afurða, ásamt rannsóknum á samsetningu og eiginleikum afurðanna. Undanfarin ár hefur mjög mikil áhersla verið lögð á rannsóknir á vinnslu ýmissa verðmætra afurða úr sjávarfangi til notkunar í matvæli og í heilsuiðnaði. Auk þess eru stundaðar rannsóknir á öðrum matvælum og landbúnaðarafurðum eins og kjöti, mjólk og mjólkurafurðum eins og t.d. skyri.

Erlent samstarf er einkennandi fyrir matvæla- og næringarfræðideild og eru kennarar þátttakendur í mörgum alþjóðlegum rannsóknarverkefnum.


Rannsóknaáherslur

Eðlis- og efnaeiginleikar matvæla

Vinnslutækni-ferlastýring

Flutningsferlar

Stöðugleiki matvæla

Líftækni

Rekjanleiki

Gæðastýring

Vöruþróun


Að námi loknu

Útskrifaðir matvælafræðingar vinna við ýmis störf. Þeir taka þátt í stjórnun, stefnumörkun og ákvörðun um matvælafræðileg málefni. Matvælafræðingar starfa meðal annars hjá einkafyrirtækjum, rannsóknastofnunum, háskólum og öðrum menntastofnunum og heilbrigðisstofnunum. Störf matvælafræðinga eru mjög fjölbreytt en þeir vinna meðal annars við rannsóknir, kennslu, vöruþróun, markaðsmál, stjórnun fyrirtækja, flutningastýringu, eftirlitsstörf og ráðgjöf.


Félagslíf

Hnallþóra er félag matvæla- og næringarfræðinema við Háskóla Íslands, en megin markmið félagsins er að gæta hagsmuna nemenda og efla samstöðu meðal þeirra. Hnallþóra sér um að halda uppi öflugu félagslífi fyrir nemendur. Farin er nýnemaferð út á land, árshátíð er haldin og vísindaferðir eru skipulagðar með reglulegu millibili og í þeim felst meðal annars heimsókn til fyrirtækja og stofnana sem tengjast náminu.


Kynntu þér málið á heimasíðu deildarinnar
www.matur.hi.is/
Kynningarbæklingur HÍ-matvælafræði NÆRINGARFRÆÐI

Heilbrigðisvísindasvið 


Næringarfræði – ný tækifæri við Háskóla Íslands

Næringarfræði byggir á sterkum grunni raun-, líf- og heilbrigðisvísinda og gefur innsýn í félagsvísindi, markaðsfræði og upplýsingatækni. Næringarfræðin fjallar meðal annars um næringarþörf heilbrigðra og sjúkra á ýmsum æviskeiðum, um hlutverk og jafnvægi orkuefna, vítamína, steinefna og annarra efna úr fæðu í mannslíkamanum. Gæði matvæla út frá hollustu eða hættu af þeim og fæðutengdum efnum eru umfjöllunarefni næringarfræðinnar. Greinin fjallar einnig um mikilvægi næringar fyrir mannslíkamann í mismikilli þjálfun og tengsl við íþróttir. Tengsl næringar mannsins við umhverfi, iðnað og markaði eru mikil og nauðsyn er að þekkja bæði möguleika og hindranir sem þau skapa. Næring skiptir alla máli og nauðsynlegt er að þekkja möguleika, vandamál og hefðir sem tengjast næringu bæði í þróuðum ríkum löndum og í þróunarlöndum. Löggilt starfsheiti næringarfræðings krefst MS-gráðu í greininni.

Í rannsóknar- og framhaldsnámi er boðið upp á sérhæfingu á ýmsum sviðum næringarfræðinnar eins og í klínískri næringarfræði, lýðheilsu- og samfélagsnæringarfræði og næringarefnafræði. Nemendur þjálfast í notkun faraldsfræðilegra aðferða, vistfræði og tilraunavísindum, auk hæfni til kynningar, samskipta og ráðgjafar um næringarfræðileg málefni.

Grunnnám til B.S. gráðu í næringarfræði er 180 eininga, þriggja ára, nám. MS-námið er 120 einingar með rannsóknarverkefni unnið undir handleiðslu og í samstarfi við kennara og samstarfsfólk innanlands og utan. Doktorsnám í næringarfræði felur í sér 180 eininga vísindaleg og tæknileg rannsóknarverkefni sem leiða til nýrrar þekkingar og nýsköpunar. Öllum nemendum í rannsóknar- og framhaldsnámi stendur til boða að taka hluta af námi sínu erlendis í samvinnu við leiðbeinendur.


Innlent og alþjóðlegt tengslanet

Öflugt samstarf er á milli kennara deildarinnar og stofnana og fyrirtækja innanlands, t.d. margra deilda Landspítala-háskólasjúkrahúss, Lýðheilsustöðvar, Miðstöðvar heilsuverndar barna, Matís ohf og fyrirtækja í iðnaði. Nemendur fá tækifæri til að tengjast atvinnulífi og öðlast reynslu í samskiptum við innlenda og erlenda aðila í náminu, sem er ómetanleg reynsla sem nemendur búa að eftir að námi lýkur. Kennarar í næringarfræði eru í virku samstarfi við 30 rannsóknarhópa við erlenda háskóla og stofnanir, auk tengsla við fjölmarga fleiri erlenda aðila.


Framúrskarandi rannsóknir

Kennarar í næringarfræði og nemendur í rannsóknarnámi hafa starfsaðstöðu á Rannsóknarstofu í næringarfræði. Tækifæri í rannsóknum á sviði næringarfræði hérlendis eru gríðarlega mikil. Áhugi almennings eða neytandans á góðri næringu er einnig alþjóðlegur og kallar á næringarfræðinga til margra starfa. Í rannsóknum á sviði næringarfræði er sérstaða Íslands hvað varðar næringargildi ákveðinna fæðutegunda og fæðuvenja mjög áhugavert rannsóknarefni, sem í dag er vannýtt auðlind.

Erlent samtarf er einkennandi fyrir matvæla- og næringarfræðideild og eru kennarar þátttakendur í mörgum alþjóðlegum rannsóknarverkefnum. Nemendur bæði í grunn- og framhaldsnámi deildarinnar eiga því kost á mikilli reynslu gegnum alþjóðleg tengsl deildarinnar.


Rannsóknaáherslur

Næring viðkvæmra hópa

Lýðheilsunæringarfræði

Klínísk næringarfræði

Næringarefnafræði

Íþróttanæringarfræði

Næring þróunarlanda

Vöruþróun og neytendafræði


Að námi loknu

Útskrifaðir næringarfræðingar vinna við ýmis störf. Næringarfræðingar taka þátt í stjórnun, stefnumörkun og ákvörðun um næringarfræðileg málefni og ráðleggingar um mataræði. Næringarfræðingar starfa meðal annars hjá einkafyrirtækjum, rannsóknastofnunum, eftirlits- og stjórnsýlsustofnunum, háskólum og öðrum menntastofnunum, og heilbrigðisstofnunum. Störf næringarfræðinga eru mjög fjölbreytt en þeir vinna meðal annars við rannsóknir, vöruþróun, markaðsmál, kynningarmál, stjórnun og ráðgjöf.


Kynntu þér málið á heimasíðu deildarinnar
www.naering.hi.is
Kynningarbæklingur HÍ-næringarfræði 

MN═ | MatvŠla- og nŠringarfrŠ­afÚlag ═slands | Pˇsthˇlf 8941 | 128 ReykjavÝk | SÝmi 863 6681 | Netfang: mni[at]mni.is
Vefur MN═ byggir ß D10 Vefb˙na­i. ═slenskt hugvit fyrir Ýslensk fÚlagasamt÷k.