Um félagið
Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands (MNÍ) var stofnað 1981. Það er fagfélag matvælafræðinga, næringarfræðinga, næringarráðgjafa og skyldra stétta. Fjöldi félagsmanna var 196 í árslok 2004.
Starfsemi
Á vegum félagsins eru haldin fræðsluerindi og gefin út fréttabréf. Matvæladagur er haldinn árlega á vegum félagsins.
Markmið
Markmið félagsins er að sameina matvælafræðinga, næringarfræðinga, næringarráðgjafa og aðra með háskólapróf í skyldum greinum í eitt félag. Einnig að stuðla að þróun í matvælafyrirtækjum og efla samstarf við þau, stuðla að aukinni menntun og eflingu vísindalegra rannsókna á sviði matvæla- og næringarfræða, vinna að umbótum í manneldismálum þjóðarinnar og leitast við að hafa áhrif á löggjöf varðandi starfssvið félagsmanna.
Matvælafræði
Matvælafræðin er vísindagrein sem fjallar um eiginleika matvæla og þau lögmál sem liggja að baki matvælavinnslu. Matvælafræðingar (food scientists) vinna margvísleg störf í matvælaiðnaði svo sem við vöruþróun, gæðastjórnun og framleiðslustjórnun. Þeir vinna einnig hjá rannsóknarstofnunum og heilbrigðiseftirliti.
Næringarfræði
Næringarfræðin er vísindagrein sem fjallar um næringu og líkamsstarfsemi og tengsl mataræðis við heilsu. Næringarfræðingar (nutritionists) vinna einkum við rannsóknir, kennslu og almenningsfræðslu. Næringarráðgjafar (clinical dietitians) hafa sérhæft sig í næringarmeðferð sjúkra og starfa yfirleitt á sjúkrastofnunum, við almenningsfræðslu og kennslu. "Administrative dietitians" (hafa ekki fengið íslenskt heiti ennþá) hafa sérhæft sig í mataræði hópa og stjórnun stóreldhúsa með hollustu og gæði matarins að leiðarljósi og starfa yfirleitt sem stjórnendur á sjúkrastofnunum. MNÍ hefur gefið út ritið Matur er mannsins megin frá árinu 1993.
Gæðahandbók MNÍ
Stjórn MNÍ hefur unnið að því á liðnum mánuðum að skrá betur niður uppbyggingu og vinnuferla félagsins. Um leið leggur stjórnin til að gerðar verði nokkrar breytingar á uppbyggingunni, t.d. að stofnuð verði sérstök kynningarnefnd sem sjái m.a. um reglulega fræðslupistla í dagblöð, að næringarhópur verði faghópur innan félagsins og að stofnaður verði annar faghópur matvælahópur. Faghópum er ætlað að aðstoða stjórn að vinna betur að þeim markmiðum félagsins sem finna má í 2. gr. laga félagsins.
Drög að handbók MNÍ