Matvæladagur Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands 2014 var haldinn á Hótel Sögu föstudaginn 17. október. Um 110 manns sóttu daginn og tóku virkan þátt í skoðana skiptum um málefni dagsins.
Dagurinn var að þessu sinni helgaður umfjöllun um upplýsingamiðlun tengda matvælum, frá framleiðslu til neytanda út frá mismunandi sjónarhornum undir yfirskriftinni Miðlun upplýsinga um matvæli - áhrif hollustu, umhverfis og uppruna á val. Undir lokinn var fjallað á opinskáan máta um fæðuöryggi og matarsóun en málefnið verður sífellt stærra um sig og hlítur því meiri umfjöllun þar sem áhrif matarsóunar á umhverfið, samfélagið og hagkerfið eru mikil. Meðvitund fólks er einnig sífellt að verða meiri og viðurkenning á vandamálinu er nokkuð almenn.
Á Matvæladeginum 2014 var megin markmiðið að velta upp helstu ástæðum fyrir matarvali neytenda og þeim aðferðum sem framleiðendur og seljendur nota til að hafa áhrif á val. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er verð og hollusta, en þættir eins og siðferði og samfélagsleg ábyrgð eru þættir sem eru farnir að skipta meira máli fyrir fleiri og fleiri neytendur. Á hinn bóginn eru síðan þættir eins og merkingar matvæla og upplýsingagjöf sem skipta sköpum fyrir neytendur til að þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um hvað þeir velja.
Lögð var áhersla á að tengja saman ólíkar stéttir til að auka skilning á kauphegðun neytenda og til að reyna að átta sig á því hvaða hvatar liggja að baki því hvað neytendur velja, og ekki síst af hverju þeir velja það sama aftur og aftur.
Ragna B. Garðarsdóttir lektor í félagssálfræði við Háskóla Íslands reið á vaðið og fjallaði um hvað það er sem ræður vali neytenda í matvöruversluninni og þegar þeir kaupa önnur matvæli til dæmis á veitingastöðum. Hún fjallaði um aðferðir verslunarinnar til að draga athygli viðskiptavinarins að ákveðnum matvörum og hvernig nota má markaðsfræði og auglýsingar til að ná tökum á neytandanum. Næst á mælendaskrá var Erla Jóna Einarsdóttir gæðastjóri hjá Ölgerðinni sem leyfði gestum að skyggnast inn í ýmis ferli innanbúðar hjá gos- og drykkjarvöruframleiðanda til að átta sig á því hvernig saman fara faglegir þættir og markaðstengd sjónarmiði. Jónína Þ. Stefánsdóttir matvælafræðingur hjá MAST fræddi gesti um opinberar kröfur um merkingar á umbúðum matvæla og breyttar útfærslur á miðlun upplýsinga þar um. Kröfur hafa verið auknar um upplýsingar um innihald, næringargildi, geymsluþol og geymsluaðferðir. Það sköpuðust virkar umræður um fullyrðingar á umbúðum matvæla svo og aukar kröfur um upprunamerkingar. Ljóst er að margar leiðir eru færar og áhrifaríkar til að koma upplýsingum á framfæri við neytendur það er hins vegar misjafnt hvað hentar hverjum hópi neytenda best. Garðar Stefánsson kom næstur og fjallaði um nýsköpun í íslenskum matvælaiðnaði. Hann gaf gestum innsýn í hans sýn sem framkvæmdastjóri Norður og Co en fyrirtækið er á mikilli siglingu í framleiðslu á hágæða sjávarsalti sem unnið er á vistvænan máta hér á Íslandi. Hann horfði til framtíðar og gaf innsýn í þá möguleika sem hann sér fyrir Ísland í framtíðinni og snýr að matvælaframleiðslu og nýsköpun með réttum markaðsfræðin að vopni. Daði Már Kristófersson auðlindahagfræðingur við Háskóla Íslands fékk það hlutverk að skilgreina orðið fæðuöryggi, og varpa ljósi á það hvernig við tryggjum fæðuöryggi til framtíðar. Einnig ræddi hann hvort að heimurinn í heild væri að reyna nóg til að sporna gegn þeirri þróun sem orðið hefur. Þó erindi Daða hafi á tímabili dregið upp fremur dökka mynd af ástandinu þá er ljóst að verið er að reynda að leita leiða til að snúa þessari slæmu þróun við með hag heildarinnar að leiðarljósi. Dr. Rannveig Magnúsdóttir hjá Landvernd lokaði deginum með áhugaverðu erindi um matarsóun. Rannveig hefur brennandi áhuga á þessu viðfangsefni og er óþreytandi að kenna og miðla og sjá leiðir þar sem við sem samfélag getum unnið saman til að draga úr sóun á mat, án þess að skaða heilsuna eða ganga of langt. Hún fjallaði um það hvernig nota má samfélagsmiðlana til að ná sem bestum árangri í að bera út boðskapinn og jafnvel deila og skiptast á matvælum sem annars færu í ruslið.
Fjöregg MNÍ var afhent og hlaut Arna ehf. frá Bolungarvík þessa eftirsóknarverðu viðurkenningu fyrir lofsvert framtak á sviði framleiðslu á hágæða laktósafríum mjólkurvörum og eru þeir vel að viðurkenningunni komnir.
Dagskrá matvæladags MNÍ 2014
Matur er mannsins megin 2014
Fyrirlestrar:
Af hverju veljum við eins og við veljum? - Ragna Benedikta Garðarsdóttir
Faglegir þættir og markaðstengd sjónarmið - Erla Jóna Einarsdóttir
Opinberar kröfur um merkingar & upplýsingagjöf - Gagnslausar eða nauðsyn? - Jónína Þ. Stefánsdóttir
Nýsköpun í íslenskum matvælaiðnaði - Garðar Stefánsson (aukaskjal)
Fæðuöryggi - raunveruleg ógn eða erum við jafnvel of sein? - Daði Már Kristófersson (aukaskjal)
Stöndum við ráðþrota gagnvart matarsóun? - Rannveig Magnúsdóttir
Virðingarfyllst, framkvæmdanefnd MNÍ dagsins 2014
Borghildur Sigurbergsdóttir
Fríða Rún Þórðardóttir
Geir Gunnar Markússon
Jónína Stefánsdóttir
Laufey Sigurðardóttir