Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands
Fréttir Greinar & pistlar Fundargerðir Myndaalbúm Tenglar Aðildarumsókn Ráðgjöf & þjónusta

Sætuefni í matvælum

Grímur Ólafsson, Ingólfur Gissurarson Nokkur umræða hefur verið í þjóðfélaginu að undanförnu um sætuefni og notkun þeirra í matvæli. Sitt sýnist hverjum og sumir hafa áhyggjur af þróuninni og áhrifum þessara efna á heilsu.

 
En hvað eru sætuefni? Sætuefni er samheiti yfir efni sem gefa sætt bragð og eru notuð, að hluta eða öllu leyti, í stað sykurs í matvælum. Þessi efni eiga það sameiginlegt að vera sæt á bragðið en innihalda mun færri hitaeiningar en sykur. Efnin eru mjög sæt eða á bilinu 30-600 sinnum sætari en sykur. Þau eru búin til í efnaverksmiðjum og eru flest óskyld náttúrulegum sykrum. Þau geta hins vegar verið úr náttúrulegum byggingareiningum. Dæmi um það er aspartam, sem er gert úr tveimur amínósýrum, en amínósýrur eru byggingarefni próteina. Algengustu sætuefnin sem notuð eru í matvælaiðnaði í dag eru aspartam, acesulfam-K, syklamat, sakkarín og súkralósi.

En hvað með öryggi þessara efna fyrir neytendur? Margir óttast að sætuefni séu óheppileg fyrir líkamann. Sá ótti ætti þó að vera ástæðulaus því fá efni hafa verið rannsökuð eins nákvæmlega og einmitt sætuefni. Engin sætuefni eru notuð í mat án þess að áhrif þeirra á heilsu hafi verið rannsökuð gaumgæfilega. Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) metur hvort efnið geti haft óæskileg áhrif á heilsu. Meðal annars er skoðað hvort efnið geti hugsanlega verið eitrað, krabbameinsvaldandi, haft áhrif á fóstur eða erfðaefni. Ef stofnunin telur ekki ástæðu til að óttast neitt af þessu er efnið talið hæft til notkunar í matvæli og leyft í tilteknar vörur og í tilteknu magni. Eftir sem áður er fylgst vel með öllum nýjum upplýsingum sem koma fram um sætuefnin til að vera viss um engin áhætta sé tekin með notkun efnanna.

Notkun sætuefna í unnin matvæli hefur aukist mikið á síðari árum en þau eru mest notuð í drykkjarvörur, sælgæti og nú í auknum mæli í mjólkurvörur ýmiskonar. Umhverfisstofnun hefur metið hversu mikið af sætuefnunum aspartam, asesulfam-K og sýklamati Íslendingar fá úr gosdrykkjum. Niðurstaða stofnunarinnar er að neysla á þessum efnum sé talsvert undir þeim öryggismörkum sem sett hafa verið. Þessar niðurstöður eiga þó einungis við um gosdrykki og ekki er vitað með vissu hver heildarneyslan er. Það þarf því að skoða betur. Umhverfisstofnun mun halda áfram að fylgjast með neyslu á sætuefnum og leitast við að hafa sem skýrasta mynd af neyslu þjóðarinnar á hverjum tíma. Hægt er að lesa meira um sætuefni á vef Umhverfisstofnunar, www.ust.is.

Grímur Ólafsson og Ingólfur Gissurarson
Fréttablaðið, 1. febrúar 2007,
Bls 18, 31. tölublað - 7. árgangur






MNÍ | Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands | Pósthólf 8941 | 128 Reykjavík | Sími 863 6681 | Netfang: mni[at]mni.is
Vefur MNÍ byggir á D10 Vefbúnaði. Íslenskt hugvit fyrir íslensk félagasamtök.